Landsmótssigurvegarinn í B-flokki ungmenna, Tumi frá Jarðbrú, fer í girðingu í Árbæ, Rangárþingi Ytra, 29. júlí.
Hann hlaut 8,61 í aðaleinkunn í kynbótadómi sem skiptist í 8,56 fyrir sköpulag og 8,63 fyrir hæfileika. Eins og áður sagði sigraði Tumi ásamt knapa sínum, Matthíasi Sigurðssyni, B-flokk ungmenna á LM 2024 með 9,03 í aðaleinkunn. Tumi varð í 2 sæti í B-flokki á LM 2022 með 9,12 í aðaleinkunn þá setinn af Jakobi Svavari Sigurðssyni. Tumi og Jakob sigruðu tölt T1 á Reykjavíkurmeistaramóti 2022. Hæsta einkunn hans í tölti er 8,20 í forkeppni og 8,67 í úrslitum. F: Trymbill frá Stóra-Ási, ae. 8,57 M: Gleði frá Svarfhóli, ae. 8,32 Verð á tollinum er 150 þúsund m/vsk (inn í því er girðingagjald og 1 sónar). Nánari upplýsingar veita Maríanna í síma 894 6611 og Matthías í síma 854 5315.
0 Comments
Það er ekki hægt að segja annað en að orð Vigdísar að lokinni verðlaunaafhendingu á Landsmótinu hafi átt vel við "Ég flýg hamingjusöm á vænjum kríunnar". En Hamingja frá Árbæ var krýndur Landsmótssigurvegari í flokki 4 vetra hryssna og Kría frá Árbæ hafnaði í sjötta sæti í sama flokki. Frábær árangur hjá þessum miklu gæðingum og ekki sjálfgefið að ná svona góðum árangri með ung hross.
Hamingja hækkaði dóm sinn frá því í vor en hún hlaut 8,36 í aðaleinkunn sem skiptist í 8,54 fyrir sköpulag og 8,26 fyrir hæfileika. Hún hlaut m.a. 9,0 fyrir höfuð - háls, herðar og bóga - bak og lend og hægt stökk. Hamingja er undan Gleði frá Árbæ og er því sammæðra Geisla frá Árbæ sem hampaði gulli í flokki 6 vetra stóðhesta á HM í Hollandi 2023. En Gleði var undan Vökli frá Árbæ og Glás frá Votmúla 1. Faðir Hamingju er gæðingafaðirinn Draupnir frá Stuðlum, sem var undan Kiljan frá Steinnesi og Þernu frá Arnarhóli. Keila hlaut í aðaleinkunn 8,29 sem skiptist í 8,45 fyrir sköpulag og 8,21 fyrir hæfileika en hún lækkaði aðeins frá því í vor en hún var með 8,38 í aðaleinkunn inn á mót. Móðir Kríu er Keila frá Árbæ sem er undan heiðursverðlaunahrossunum Keili frá Miðsitju og Arndísi frá Feti. Faðir Kríu er Spaði frá Stuðlum sem var undan Barða frá Laugarbökkum og Þernu frá Arnarhóli. Þær Hamingja eru nokkuð skyldar en heiðursverðlaunahryssan Þerna frá Arnarhóli er amma þeirra beggja að föðurnum til og heiðursverðlaunahryssan Vigdís frá Feti er langamma þeirra beggja að móðurinni til. Við erum ákaflega stoltar af þessum miklu gæðingum og árangri þeirra í vor og á Landsmótinu. Þessum frábæra árangri væri að sjálfsögðu ekki náð nema með hóp af góðu fólki í kringum okkur og er það ómetanlegt og erum við þeim öllum þakklátar. Hamingja og Kría voru tamdar af Ástu og Lárusi og hafa þær verið í þjálfun hjá þeim en svo var það Árni Björn sem sá um að sýna þær og kalla fram að besta í þeim á þeirri stundu. Þessi þrjú mynda frábært teymi sem gaman er að vinna með og erum við ákaflega þakklát fyrir þeirra þátt í þessu. Bjútíbomban Haminga frá Árbæ var sýnd í kynbótadómi á Selfossi í vikunni og ekki hægt að segja annað en það hafi farið fallega. Hamingja er 4 vetra gömul undan Draupni frá Selfossi og Gleði frá Árbæ og er því sammæðra heimsmeistaranum Geisla frá Árbæ. Hamingja hlaut fyrir sköpulag 8,54 og 8,03 fyrir hæfileika sem gerir 8,21 í aðaleinkunn og miða á Landsmót. Hamingja var listilega sýnd af Árna Birni og eiga Lárus og Ásta heiðurinn af tamningu hennar og þjálfun.
Hinn 4 vetra gæðingur, Kría frá Árbæ, var sýnd í fullnaðardóm í gær og ekki hægt að segja annað en að það hafi gengið ljómandi vel. Hún hlaut hvorki meira né minna en 8,38 í aðaleinkunn og er efsta 4 vetra hryssan inn á Landsmót sem stendur. Kría er undan Keilu frá Árbæ sem er undan heiðursverðlaunahrossunum Arndísi frá Feti og Keili frá Miðsitju. Faðir hennar er gæðingurinn Spaði frá Stuðlum. Kría var listilega sýnd af Árna Birni og eiga Lárus og Ásta heiðurinn af tamningu hennar og þjálfun.
Fagráðstefna hrossaræktarinnar fór fram um liðna helgi og þar hlaut Verona frá Árbæ heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Hún stóð jafnframt efst yfir þær hryssur sem hlutu verðlaunin og hlaut því Glettubikarinn. "Þakklæti er það fyrsta sem kemur upp í huga mér á þessari stundu en ekki óraði mig fyrir því fyrir 18 árum þegar foreldrar mínir gáfu mér Veronu í þrítugsafmælisgjöf að ég ætti eftir að standa í þessum sporum í dag. Drottningin mín er komin í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sem er æðsta viðurkenning sem ræktunarhryssa geta hlotið og ekki bara heiðursverðlaun heldur stendur hún efst yfir þær hryssur sem hlutu þessa viðurkenningu í ár og hlaut Glettubikarinn. Verona er undan heiðursverðlaunahrossunum Aroni frá Strandarhöfði og Vigdísi frá Feti og er hún þriðja afkvæmi Vigdísar til að hljóta þessa viðurkenningu en áður hafa þau Arndís frá Feti og Vilmundur frá Feti hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Ég hafði alltaf mikla trú á henni og vissi að hún væri mikill gæðingur. Hún er hæfileikarík, gullfalleg og grípur alltaf augað þegar þú horfir yfir stóðið og er það eiginleiki sem hún hefur gefið áfram til afkvæma sinn. Það sem einkennir afkvæmi hennar helst er að þau eru háfætt, fallega byggð, jákvæð og alltaf til í að vinna með knapanum ásamt því að vera með mikil og góð skil milli gangtegunda. Hún hefur gefið mér margan gæðinginn og hafa fimm afkvæmi hennar hafa hlotið fullnaðardóm og fjögur þeirra hafa hlotið fyrstu verðlaun. Af afkvæmum hennar er Seðill frá Árbæ (F: Sjóður frá Kirkjubæ) eflaust þekktastur en hann hefur staðið sig vel á kynbótabrautinni og hlaut hvorki meira né minna en 8,75 í aðaleinkunn 7 vetra gamall. Hans fyrstu afkvæmi komu til tamningar nú í haust og ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt hjá honum sem kynbótahesti. Þau afkvæma hennar sem verða á húsi í vetur eru þeir Seðill og Auga-Steinn (F: Thór-Steinn frá Kjartansstöðum) á sjöunda vetur sem ætla jafnvel að reyna fyrir sér á hringvellinum næstu keppnistímabil, Jökull (F: Rammi frá Búlandi) á fimmta vetur sem hlaut 8,27 fyrir sköpulag í vor og Rún (F: Safír frá Mosfellsbæ) á fjórða vetur sem er bráð efnileg fegurðardís sem verður gaman að fylgja eftir. Stefnt er með hana og Jökul í kynbótadóm á næsta ári. Dætur hennar þær Drift (F: Ketill frá Kvistum), Díva (F: Toppur frá Auðsholtshjáleigu) og Þórdís (F: Arnoddur frá Auðsholtshjáleigu) eru allar komnar í ræktun og verður spennandi að sjá hvort einhver þeirra feti í fótspor móður sinnar. Drottningin varð 19 vetra í vor og í fyrsta sinn endurtók ég eldri pörun en hún er fylfull við Sjóð frá Kirkjubæ og ekki laust við að ég sé mjög spennt fyrir því að það folald fæðist og væri nú ekki verra að fá hryssu í þetta sinn en myndi svo sem ekki gráta ef það kæmi hestur. Á þessum tímapunkti er ég fremst af öllu þakklát mömmu og pabba fyrir að hafa ræktað þennan mikla gæðing og ég veit að pabbi er með okkur í anda og fagnar þessum árangri okkar ræktunar. En þessum frábæra árangri væri að sjálfsögðu ekki náð nema með hóp af frábæru fólki í kringum mig sem hefur stutt mig og aðstoðað mig við að gera hana og afkvæmi hennar að því sem þau eru í dag og þeim verð ég ævinlega þakklát. Við Verona þökkum auðmjúkar fyrir okkur <3" Árbær var eitt af 12 búum sem voru tilnefnd sem ræktunarbú ársins 2023 og hlutu viðurkenningu á Fagráðstefnu hrossaræktarinnar í Félagsheimili Fáks í gær. Við erum afar stolt af ræktuninni okkar og heiður að vera í hópi þessara glæsilegu búa sem voru tilnefnd sem ræktunarbú ársins.
----- Árbær was nominated as one of the 12 breeding farms of the year 2023 and got awarded at the conference Hrossarækt 2023 yesterday. We are extremely proud of our little breeding and it was an honour be one of the 12 farms that were nominated. Á Uppskeruhátíð Geysis um liðna helgi hlutum við viðurkenningu fyrir heimsmeistarann Geisla frá Árbæ en hann var hæst dæmdi 6 vetra stóðhesturinn á árinu, ræktaður af Geysisfélaga ásamt því að vera hæst dæmdi stóðhesturinn ræktaður og í eigu Geysisfélaga. Geisli frá Árbæ was awarded last weekend as the highest judged 6 year old stallion bred by member of our club Geysir as well as the highest judged stallion bred and owned by a member of Geysir. Þá er heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Oirschot, Hollandi, lokið og gullmolinn hann Geisli frá Árbæ stóð sig heldur betur vel þegar hann nældi sér í gull í flokki 6 vetra stóðhesta. Hann sýndi sig frábærlega bæði í forsýningu og yfirliti og að yfirliti loknu var aðaleinkunn hans komin í 8,60 sem skiptist í 8,76 fyrir sköpulag og 8,52 fyrir hæfileika. Það er ekki hægt að segja annað en að við séum að springa úr stolti yfir þessum mikla gæðingi. Hann sýndi sig mjög vel og vakti verðskuldaða athygli. Það var snillingurinn hann Árni Björn Pálsson sem sá um að sýna hann og hugsaði um hann úti fyrir okkur en hér heima hafa þau Lárus og Ásta borið hitann og þungann af þjálfun hans og erum við þessu magnaða þríeyki ákaflega þakklát fyrir þeirra frammistöðu. Nú taka við ný verkefni hjá honum á meginlandinu og verður gaman að fylgjast með honum í þeim af hliðarlínunni. Aðaleinkunn kynbótadóms
Veronusonurinn Auga-Steinn frá Árbæ var sýndur í kynbótadómi á Hellu nú í vikunni og hlaut glæsilegan dóm. En hann hlaut 8,21 fyrir sköpulag og 8,30 fyrir hæfileika sem gerir 8,27 í aðaleinkunn. Auga-Steinn er 6 vetra gamall undan þeim Thór-Steini frá Kjartansstöðum og Veronu frá Árbæ. Hann er fimmta afkvæmi Veronu til að hljóta fullnaðardóm og það fjórða til að fara í fyrstu verðlaun. Með þessu uppfyllir Verona nú allar kröfur sem eru gerðar til að hljóta heiðursverðlaun fyrir afkvæmi sem gerir þennan dóm hans enn sætari og verður gaman að sjá þegar kynbótamatið verður reiknað í haust hvar hún endar í röðinni. En við erum ákaflega stolt af henni og afkvæmum hennar. Það var Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sýndi hann með glæsibrag en hann hefur verið hjá henni frá í byrjun júní en þjálfun hans fram að því hefur verið í höndum góðra vina okkar og meðeiganda í honum þeirra Eddu Rún og Sigga Matt ásamt þeirra fólki. Aðaleinkunn kynbótadóms 8,27
|
AuthorWrite something about yourself. No need to be fancy, just an overview. Archives
December 2023
Categories |